Golfklúbburinn rekur veitingasölu í sumar

Nú liggur fyrir að golfklúbburinn muni annast og reka veitingasölu í golfskálanum í sumar. Stefnt er að bjóða upp á veitingar frá hádegi og fram eftir kvöldi. Unnið er hörðum höndum við að undirbúa komandi sumar og er starfsfólk skálans spennt að taka á móti gestum sumarsins.

Byrjendanámskeið

Hefst 7. júní og stendur í 3 vikur. Kennt verður 3x í viku síðdegis, mánudaga, miðvikudaga og laugardaga. Þjálfarar eru reyndir kylfingar í Golfklúbbi Húsavíkur. Verð er 31.000 kr. og fá þátttakendur fulla aðild að Golfklúbbi Húsavíkur sumarið 2021 (frítt á völlinn). Hægt verður að fá lánaðar kylfur á staðnum.

    Jón Elvar rekur golfskálann í sumar.

    Stjórn Golfklúbbs Húsavíkur hefur samið við Jón Elvar Steindórsson um rekstur golfskálans í sumar. Aðspurður segir Jón Elvar þetta kjörið verkefni fyrir fjölskylduna í sumar. Þau munu leggja metnað sinn í að taka vel á móti fólki sem kemur til að spila golf á þessum fallega 9 holu velli eða þeim sem einfaldlega reka inn nefið til að fá sér kaffibolla og fylgjast með kylfingum á vellinum. Ef að líkum lætur, verðu margt fólk á vellinum í sumar. Jón Elvar er matreiðslumaður að mennt og hefur víðtæka reynslu á rekstri gegnum árin.

    Viðhald á golfskála.

    Ný stjórn Golfklúbbs Húsavíkur tók þá ákvörðun á sínum fyrsta fundi að hún myndi einnig sinna hlutverki húsnefndar þetta árið.

    Síðustu ár hafa verið miklar umræður innan klúbbsins um byggingu nýs golfskála og í raun stöndum við enn á upphafsreit í þeim efnum. Markmið nýrrar stjórnar er að láta draum félagsmanna um nýjan golfskála rætast á næstu 3 árum. Á meðan þarf starfsemin að vera í núverandi golfskála en ljóst er að viðhald á honum hefur verið takmarkað síðustu ár og hann illa farinn. Nauðsynlegt er að fara í viðhald á ytra byrði hússins til að hindra streymi vatns inn í húsið. Búið er að meta hvað þarf að gera og mun sú vinna hefjast eins fljótt og verður leyfir.

    Á meðan beðið er eftir góðu verðri til framkvæmda utandyra, ákvað stjórnin að taka til hendinni innandyra, laga til,  endurnýja skrifstofuna, mála salinn, pússa upp gólfið og bera á það, betrumbæta aðstöðuna við eldhúsið o.fl. Þessar framkvæmdir hafa ekki verið kostnaðarsamar þar sem stjórnin hefur unnið þetta allt sjálf með dyggri aðstoð og góðum ráðum fagmanna innan klúbbsins. Má segja að þær systur Birna og Kiddý Hörn Ásgeirsdætur hafi borið mestan hita og þunga af skipulagningu og framkvæmdum innandyra.

    Aðalfundur GH fyrir 2020.

    Aðalfundur GH var haldinn í febrúar. Ný stjórn tók við eftir fundinn en hana skipa:
    Birna Ásgeirsdóttir formaður
    Karl Hannes Sigurðsson varaformaður
    Sigurgeir Höskuldsson gjaldkeri
    Kiddý Hörn Ásgeirsdóttir ritari
    Jón Elvar Stefánsson meðstjórnandi
    Farið var yfir reikninga ársins 2020 sem komu ágætlega út.
    Einnig var farið yfir starf nefnda og mönnun þeirra árið 2021, sem og önnur mál eins og nýjan golfhermi klúbbsins og húsnæðismál framtíðarinnar.
    GH þakkar fráfarandi stjórnarfólki þeim Hjálmari Boga, Gunnlaugi og Birnu Dögg fyrir sitt framlag til klúbbsins, einnig starfsfólki vallarins og nefnda og síðast en ekki síst klúbbmeðlimum, gestum og styrktaraðilum fyrir árið 2020.